Þau vilja þjóðríkið feigt

Málþóf pírata snerist að nafninu til um mannréttindi með áherslu á mannúð þeirra sjálfra. Baksvið umræðunnar felst í að ríkislögreglustjóri lýsti neyðarástandi á landamærum. Fólksflutningarnir eru komnir yfir öll mörk á tölulegan mælikvarða.

Þegar upp er staðið sést að markmið málþófsins er skýrt. Þau vilja galopin landamæri og engar hömlur á að fólk flytjist hingað til lands og setjist í mörgum tilfellum upp á velferðarkerfið. Fjárhagslegar afleiðingar þessa virðast ekki vefjast fyrir ræðumönnunum.

Þjóðríki án landamæra rís ekki undir nafni. Fullveldi þjóðarinnar missir merkingu þegar stjórnvöld hafa ekkert um það að segja hverjir koma hingað til að setjast hér að. 

Einn kappsamasti ræðumaðurinn, Björn Leví Gunnarsson, svaraði fyrirspurn á feisinu um afstöðu pírata til stefnubreytingar í Danmörku undir forystu jafnaðarmanna sem leiða ríkisstjórn annað kjörtímabilið í röð. Hann skrifaði: En hvað kemur mér við hvað einhverjir jafnaðarmenn í Danmörku eru að druslast. Sýnist sem þingmaðurinn stæri sig af vanþekkingu á stefnu Dana byggðri á langri reynslu og víðtækri pólitískri samstöðu. Forsætisráðherra Dana lýsir þeirri stefnu sem við fylgjum sem mistökum.

Einstakir þingmenn Samfylkingar halda uppi háværum málflutningi í sama dúr og píratar. Viðreisn er ekki langt undan og skrifar upp á samstöðu með pírötum og samfó með því að kjósa til nýrrar trúnaðarstöðu í flokknum mann sem sýnist tala meir af ákafa en yfirvegaðri þekkingu á þeim málaflokki sem hér um ræðir.

Vinstri grænir verða að axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa forystu fyrir ríkisstjórn með því að greiða fyrir nauðsynlegum lagabreytingum umfram þær sem nú standa fyrir dyrum til að laga íslenska löggjöf að því sem gerist og gengur í nágrannalöndunum. Þetta gengur ekki svona lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ólafur; sem og aðrir þínir gestir !

Núverandi stjórnarfar í landinu; er í hrópandi mótsögn við það, sem vera ætti.

Vilji Íslendingar; vihalda þjóðerni og menningu þeirri, sem við og aðrar eldri kynslóðanna höfum alist upp við, verðum við að stemma stigu við skefjalausu aðstreymi fólks annarrs staðar frá (undanskil: Færeyinga og Grænlendinga, okkar nánustu nágranna / sem og landflótta Úkraínumenn) sem og að stemma stigu við ferðamanna flaumnum:: hann er jú, höfuðorsök þeirrar ofurþenzlu, sem við erum að kljást við, ferðaþjónustan svo kallaða reynir af kappi miklu, að sækja ódýrara og ódýrara vinnuafl erlendis frá, til þess að manna störf hótelanna, m.a.

Pírata skammirnar; Samfylking og Viðreisn eru einskonar endurrómur af sífellt  versnandi ástandinu í landinu, sem:: núverandi stjórnarflokkar bera höfuð- ábyrgðina á, eins og löngu er komið á daginn.

Við skulum ekki hugleiða; á nokkurn handa máta, að Vinstri Grænir muni nokkurn tíma velta fyrir sjer hugtakinu ábyrgð:: hafa ekki gert það hingað til, og því síður hjeðan í frá.

Það; sem landsmenn ættu að snúa sjer að á næstunni, er efling ávxta- og enn frekari grænmetisræktun, til allra landshlutanna, hver eru fremur mannaflafrek störf, og Íslendingar gætu sjálfir að staðið, eins og menn til viðbótar þeim sjávarútvegi og landbúnaði, sem og iðnaði sem fyrir eru, nú þegar.

Draga þarf; úr ofgnótt Háskóla lærdómsins, offramboð algjört, af ýmiss konar blýanta nögurum, sem og Tölvu glápurum yngri kynslóðanna, þessu fólki (Íslendingum) er engin minnkun að starfa með höndunum frekar en þeim okkar, sem eldri erum að árum og búum yfir víðtækri þekkingu úr hinu daglega lífi verðmætaframleiðzlunnar, til lands og sjávar.

Með beztu kveðjum /

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.2.2023 kl. 17:52

2 identicon

VEL MÆLT  ÓLAFUR og sannarlega timabært  ...Nu þarf að snua þessari óheillaþroun við hratt og ötugglega !

Ragnhild H. Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2023 kl. 19:01

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband