Járnbrautarslys í beinni útsendingu

Björn Bjarnason leggur á heimasíðu sinni bjorn.is í dag út af frétt Þórarins Þórarinssonar í Fréttablaðinu, þegar hann hefur eftir mér að framboð Miðflokksins í Alþingiskosningum 2021 hafi verið mér með öllu óviðkomandi. Ég segi þar að framboðið hefði haft skírskotun til þriðja orkupakkans hefði ég einhverju um ráðið.

Björn ályktar að innan Miðflokksins hafi menn ekki viljað flagga þriðja orkkupakkanum og andstöðu við hann fyrir kosningarnar.

Ég viðurkenni að ég kann ekki svar við þessari spurningu. Mér er ekki ljóst hvaða sjónarmið lágu til grundvallar framboði Miðflokksins til Alþingiskosninga 2021. Kenning Björns Bjarnasonar í því efni sýnist jafn góð og hver önnur.

Eins og aðrir varð ég vitni að járnbrautarslysi í beinni útsendingu þar sem Miðflokkurinn beið afhroð í kosningunum. Flokkurinn mældist í tveggja stafa tölu þegar hann beitti sér sem mest gegn þriðja orkupakkanum. Þinglokkurinn var eins og ókleift bjarg á Alþingi. Þessi þingflokkur hefði getað látið myndarlega til sín taka að afloknum kosningum og jafnvel haft áhrif á meginlínur ef svo hefði borið undir.

Þingflokksins var í engu getið í kosningabaráttunni, rétt eins og hann hefði ekki verið til og hefði engu áorkað. Ekki liggja fyrir skýringar á þessari afstöðu. 

Já, þeir gerast með undarlegum hætti hlutirnir í pólitíkinni. Fullveldi þjóðarinnar og yfirráð hennar yfir verðmætum orkuauðlindum kallar á öfluga málsvara á Alþingi. Þá er ekki að sjá eins og nú standa sakir. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband