12.2.2023 | 17:06
Þau vilja þjóðríkið feigt
Málþóf pírata snerist að nafninu til um mannréttindi með áherslu á mannúð þeirra sjálfra. Baksvið umræðunnar felst í að ríkislögreglustjóri lýsti neyðarástandi á landamærum. Fólksflutningarnir eru komnir yfir öll mörk á tölulegan mælikvarða.
Þegar upp er staðið sést að markmið málþófsins er skýrt. Þau vilja galopin landamæri og engar hömlur á að fólk flytjist hingað til lands og setjist í mörgum tilfellum upp á velferðarkerfið. Fjárhagslegar afleiðingar þessa virðast ekki vefjast fyrir ræðumönnunum.
Þjóðríki án landamæra rís ekki undir nafni. Fullveldi þjóðarinnar missir merkingu þegar stjórnvöld hafa ekkert um það að segja hverjir koma hingað til að setjast hér að.
Einn kappsamasti ræðumaðurinn, Björn Leví Gunnarsson, svaraði fyrirspurn á feisinu um afstöðu pírata til stefnubreytingar í Danmörku undir forystu jafnaðarmanna sem leiða ríkisstjórn annað kjörtímabilið í röð. Hann skrifaði: En hvað kemur mér við hvað einhverjir jafnaðarmenn í Danmörku eru að druslast. Sýnist sem þingmaðurinn stæri sig af vanþekkingu á stefnu Dana byggðri á langri reynslu og víðtækri pólitískri samstöðu. Forsætisráðherra Dana lýsir þeirri stefnu sem við fylgjum sem mistökum.
Einstakir þingmenn Samfylkingar halda uppi háværum málflutningi í sama dúr og píratar. Viðreisn er ekki langt undan og skrifar upp á samstöðu með pírötum og samfó með því að kjósa til nýrrar trúnaðarstöðu í flokknum mann sem sýnist tala meir af ákafa en yfirvegaðri þekkingu á þeim málaflokki sem hér um ræðir.
Vinstri grænir verða að axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa forystu fyrir ríkisstjórn með því að greiða fyrir nauðsynlegum lagabreytingum umfram þær sem nú standa fyrir dyrum til að laga íslenska löggjöf að því sem gerist og gengur í nágrannalöndunum. Þetta gengur ekki svona lengur.