Hjálpum þeim. Já, en hvernig?

Hjálpum þeim, lag Axels Einarssonar við texta Jóhanns G. Jóhannsonar í flutningi Hjálparsveitarinnar skipaðri mörgum af helstu stórsöngvurum þjóðarinnar, snertir taug í brjósti sérhvers manns. 

Spurt var: Á ég að gæta bróður míns? Við velkjumst ekki í vafa um svarið. Já, við viljum gæta bræðra okkar og systra. Við viljum leggja okkar af mörkum til að lina þjáningar og neyð. Við viljum geta borið höfuðið hátt fyrir að hafa ekki brugðist þeim sem þurfa hjálp.

Hvernig getum við best lagt fólki í nauðum lið? Við fylgjum í reynd stefnu opinna landamæra, sem í eðli sínu er öfgastefna. Hún er ekki kominn til vegna umræðu reistri á gögnum og með hliðsjón af reynslu nágrannaþjóða. Ákafafólk vill hafa þetta svona og aðrir hafa látið skeika að sköpuðu, kannski af ótta við brennimerkingu fyrir meinta mannvonsku. Stefnunni hefir verið hafnað af nágrönnum okkar og er lýst sem mistökum. 

Ný stefna án öfga

Fyrsta atriðið er að hverfa frá gildandi stefnu opinna landamæra og taka upp aðra háttu undir formerkjum öruggra landamæra. Opin landamæri samrýmast hvorki sjálfstæðu þjóðríki né fullveldi landsins. 

Annað meginatriði er að takmarkað fé nýtist sem best og gagnist sem flestum. Við viljum ekki sóa fé í að halda uppi fólki í einu dýrasta landi í heimi þegar við getum hjálpað margfalt fleira fólki á heimaslóð eða sem býr við ill kjör í flóttamannabúðum.

Við viljum nýta farveg alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Við getum þannig bólusett tugþúsundir barna í Afríku, grafið brunna til að tryggja fólki hreint vatn og áveitur til að efla matvælaframleiðslu. Við getum opnað skóla fyrir börnin og stutt við heilbrigðiskerfi. Við getum kennt hagkvæmar aðferðir við fiskveiðar og fiskvinnslu og orkuöflun. Við getum hjálpað þeim sem höllustum fæti standa. Við getum verið stolt af framlagi okkar.

Ísland má ekki vera söluvara fyrir glæpalýð

Danir velkjast ekki í vafa um að stór hluti fólksflutninga er í höndum ósvífins glæpahyskis. Slíkir aðilar selja ferðir til landa eins og Danmerkur og Íslands. Við viljum ekki skapa óvönduðum aðilum viðskiptatækifæri með því að hafa fé af fólki fyrir að selja þeim ferðir yfir Miðjarðarhafið í manndrápsfleytum. Danskir kratar segja Miðjarðarhafið kirkjugarð fyrir þúsundir fólks, karla, kvenna og barna. Við getum ekki staðið fyrir stefnu sem hefur slíka annmarka þótt við höfum að kröfu hins svokallaða góða fólks látið þetta yfir okkur ganga of lengi. 

Við megum ekki ýta undir mansal og kynferðisglæpi

Nágrannaþjóðir hafna stuðningi við glæpalýð sem selja ferðir til landa þeirra. Við hljótum að fylgja fordæmi þeirra. Ekkert sem við gerum má stuðla að mansali og kynferðisglæpum gagnvart konum og börnum, eins og ríkislögreglustjóri hefur ítrekað varað við. Með því að fylgja í blindni stefnu mistakanna að kröfu handhafa góðmennsku og mannúðar höfum við ekki verið nægilega varkár í þessu efni. Okkur ber að taka fyrir þetta rétt eins og nágrannaþjóðir sætta sig ekki lengur við óbreytta stefnu og sem hefur aðra eins fylgikvilla og við höfum verið vöruð við.

Öfgasjónarmið borin fram í nafni mannréttinda

Píratar og fylgifé í Samfylkingu og Viðreisn hafa tekið málaflokkinn í gíslingu með því að krefjast opinna landamæra með tilheyrandi viðskiptatækifærum fyrir glæpalýð, mansal og svívirðingu á konum og börnum. Málþóf pírata með kröfu um opin landamæri með stuðningi fylgitungla var með öfgafullum hætti réttlætt með því að talað væri í þágu mannréttinda. Þeim sem amla gegn stefnu opinna landamæra er hótað brennimarkinu stóra, rasistastimplinum í boði handhafa mannúðar og góðmennsku og pópúlistastimplinum í boði hins samfylkingarsinnaða háskólasamfélags. Við getum ekki látið bjóða okkur þetta lengur.

Hættum öfgafúski og leggjum myndarlega af mörkum

Leyfum hinu svokallaða góða fólki, þið vitið fólkinu með siðferðislegu yfirburðina, einkaeign á mannúð og góðmennsku og rasistabrennimarkið á lofti, að þjóna lund sinni. Við hin skulum einbeita okkur að því að Íslendingar rétti fram hjálparhönd til bágstadds fólks og hjálpa þannig að við náum sem best til sem flestra um leið og við tryggjum örugg landamæri hér á landi.

Við getum ekki staðið undir innflutningi úr samhengi við smæð þjóðarinnar en engu að síður lagt af mörkum með myndarlegum hætti og borið höfuðið hátt.


Árás á þjóðríkið

Við búum við hættuástand á landamærum að dómi ríkislögreglustjóra. Við horfum upp á ósjálfbæran innflutning fólks sem svarar til heils myndarlegs bæjarfélags á ári hverju. Styttist í að óbreyttu að ársskammturinn verði eins og einn Garðabær. Enginn hefur bent á hvar á að taka peninga til standa undir þessu? Ekki rennur það fé til að styðja við þá sem höllustum fæti standa eða til nauðsynlegra úrbóta í heilbrigðiskerfinu.

Kostnaður við hælisleitendakerfið sýnist ríkisleyndarmál sem þolir ekki birtingu. Aðeins er birtur beinn kostnaður að einhverju marki en óbeinn kostnaður liggur milli hluta og fæst ekki upp gefinn. Skrúðmælgi er notuð til að fegra bágt ástand eins og með því að kalla íbúðir fyrir hælisleitendur búsetuúrræði.

Nágrannaþjóðirnar hafa söðlað um og horfið frá þeirri stefnu opinna landamæra sem hér er fylgt. Breið samstaða ríkir um að taka á vandanum af raunsæi og skynsemi. Danmörk, sem við berum okkur gjarnan saman við, er lýsandi dæmi. Mette Fredriksen, forsætisráðherra Dana lýsir fyrri stefnu sem mistökum og segir hælisleitendakerfi Evrópu hrunið.

Spjótin beinast að þjóðríkinu

Við erum ekki komin lengra en svo að hér virðist fólk komast upp með að ræða mál af draumlyndi og óskhyggju en mest í þágu eigin hagsmuna. Staðreyndir og rök virðast ekki hreyfa við fólki sem kallar eftir opnum landamærum. Málþóf pírata ber með sér að engin þekking sýnist fyrir hendi á kúvendingunni sem orðin er á stefnu nágrannalanda.

Í Danmörku ber hátt stefnumörkun jafnaðarmanna sem lyfti þeim í fylgishæðir og leiða þeir nú ríkisstjórn annað kjörtímabilið í röð undir forystu Mette Fredriksen. Stefna Dana er reist á langri reynslu og miður vel heppnuðum árangri.

Þjóðríki án öruggra landamæra rís ekki undir nafni. Tómt mál er að tala um fullveldi þjóðarinnar þegar stjórnvöld standa frammi fyrir opnum landamærum og hafa ekkert um það að segja hverjir koma hingað til að setjast hér að. Í þessu ljósi má jafna málþófi pírata og kröfu um galopin landamæri við árás á þjóðríki Íslendinga sem þeir leiddu með stuðningi Samfylkingar og Viðreisnar. Þessi árás er ekki bundin við málþófið heldur er viðvarandi. Þau og samstarfsflokkar þeirra vilja þjóðríkið feigt.

Málþófið snerist að nafninu til um mannréttindi en áherslan var á góðmennsku og mannúð þeirra sjálfra eins og fleirum sýnist tamt að skreyta sig með. Opin landamæri sem þau kalla eftir hafa fyrirsjáanlegar afleiðingar: Ein er sú að við verðum eins og hver önnur Belgía og tölum belgísku.

Þáttur Samfylkingar og Viðreisnar

Einstakir þingmenn Samfylkingar hafa haldið uppi háværum málflutningi í sama dúr og píratar og sýnast ekkert vilja kannast við danska systurflokkinn og virða vettergis baráttu hans í þágu danskra gilda. Þeir skirrast ekki við að bera brigður á hina dönsku stefnu og hafa ranglega sagt hana umdeilda í Danmörku. Hún er ekki umdeildari en svo að hún kom vart við sögu í þingkosningum á liðnu hausti. Yfirgnæfandi meirihluti danskra þingmanna styður stórherta stefnu eins og sést af atkvæðagreiðslum í danska þjóðþinginu.

Viðreisn er ekki langt undan og víkur sér undan að axla ábyrgð gagnvart þeim aðstæðum sem við búum við. Ákafasti talsmaður flokksins í málaflokknum hlaut nýlega flokkslega upphefð í viðurkenningarskyni fyrir málflutning sem vart verður kenndur við þekkingu eða hófstillingu.

Ábyrgð æðstu stjórnvalda

Þegar þjóðríkið liggur undir árás þriggja flokka á Alþingi, ef bein atlaga og meðvirkni reiknast saman, blasir við að æðsta forysta ríkisstjórnarinnar getur ekki setið hjá. Æðstu forystumenn verða að axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa tekið að sér forystu fyrir ríkisstjórn. Greiða fyrir nauðsynlegum lagabreytingum umfram þær sem nú standa fyrir dyrum til að laga íslenska löggjöf að því sem gerist og gengur í nágrannalöndunum. Frumskilyrði er að fella brott löglausa ákvörðun úrskurðarnefndar útlendingamála um að meðhöndla efnahagsferðalanga, t.d. frá Venesúela, sem flóttamenn sem þeir eru ekki.

Æðsta skylda stjórnvalda er að standa vörð um þjóðríkið og fullveldi þjóðarinnar. Undan þeirri skyldu fá forystumenn ekki vikist. Þeir standa frammi fyrir að rísa undir ábyrgð þegar alvarlegt hættuástand ríkir á landamærunum og harðri sókn er haldið uppi af hálfu aðila sem vilja íslenskt þjóðríki feigt. Tíminn til aðgerða er núna.


Þau vilja þjóðríkið feigt

Málþóf pírata snerist að nafninu til um mannréttindi með áherslu á mannúð þeirra sjálfra. Baksvið umræðunnar felst í að ríkislögreglustjóri lýsti neyðarástandi á landamærum. Fólksflutningarnir eru komnir yfir öll mörk á tölulegan mælikvarða.

Þegar upp er staðið sést að markmið málþófsins er skýrt. Þau vilja galopin landamæri og engar hömlur á að fólk flytjist hingað til lands og setjist í mörgum tilfellum upp á velferðarkerfið. Fjárhagslegar afleiðingar þessa virðast ekki vefjast fyrir ræðumönnunum.

Þjóðríki án landamæra rís ekki undir nafni. Fullveldi þjóðarinnar missir merkingu þegar stjórnvöld hafa ekkert um það að segja hverjir koma hingað til að setjast hér að. 

Einn kappsamasti ræðumaðurinn, Björn Leví Gunnarsson, svaraði fyrirspurn á feisinu um afstöðu pírata til stefnubreytingar í Danmörku undir forystu jafnaðarmanna sem leiða ríkisstjórn annað kjörtímabilið í röð. Hann skrifaði: En hvað kemur mér við hvað einhverjir jafnaðarmenn í Danmörku eru að druslast. Sýnist sem þingmaðurinn stæri sig af vanþekkingu á stefnu Dana byggðri á langri reynslu og víðtækri pólitískri samstöðu. Forsætisráðherra Dana lýsir þeirri stefnu sem við fylgjum sem mistökum.

Einstakir þingmenn Samfylkingar halda uppi háværum málflutningi í sama dúr og píratar. Viðreisn er ekki langt undan og skrifar upp á samstöðu með pírötum og samfó með því að kjósa til nýrrar trúnaðarstöðu í flokknum mann sem sýnist tala meir af ákafa en yfirvegaðri þekkingu á þeim málaflokki sem hér um ræðir.

Vinstri grænir verða að axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa forystu fyrir ríkisstjórn með því að greiða fyrir nauðsynlegum lagabreytingum umfram þær sem nú standa fyrir dyrum til að laga íslenska löggjöf að því sem gerist og gengur í nágrannalöndunum. Þetta gengur ekki svona lengur.


Járnbrautarslys í beinni útsendingu

Björn Bjarnason leggur á heimasíðu sinni bjorn.is í dag út af frétt Þórarins Þórarinssonar í Fréttablaðinu, þegar hann hefur eftir mér að framboð Miðflokksins í Alþingiskosningum 2021 hafi verið mér með öllu óviðkomandi. Ég segi þar að framboðið hefði haft skírskotun til þriðja orkupakkans hefði ég einhverju um ráðið.

Björn ályktar að innan Miðflokksins hafi menn ekki viljað flagga þriðja orkkupakkanum og andstöðu við hann fyrir kosningarnar.

Ég viðurkenni að ég kann ekki svar við þessari spurningu. Mér er ekki ljóst hvaða sjónarmið lágu til grundvallar framboði Miðflokksins til Alþingiskosninga 2021. Kenning Björns Bjarnasonar í því efni sýnist jafn góð og hver önnur.

Eins og aðrir varð ég vitni að járnbrautarslysi í beinni útsendingu þar sem Miðflokkurinn beið afhroð í kosningunum. Flokkurinn mældist í tveggja stafa tölu þegar hann beitti sér sem mest gegn þriðja orkupakkanum. Þinglokkurinn var eins og ókleift bjarg á Alþingi. Þessi þingflokkur hefði getað látið myndarlega til sín taka að afloknum kosningum og jafnvel haft áhrif á meginlínur ef svo hefði borið undir.

Þingflokksins var í engu getið í kosningabaráttunni, rétt eins og hann hefði ekki verið til og hefði engu áorkað. Ekki liggja fyrir skýringar á þessari afstöðu. 

Já, þeir gerast með undarlegum hætti hlutirnir í pólitíkinni. Fullveldi þjóðarinnar og yfirráð hennar yfir verðmætum orkuauðlindum kallar á öfluga málsvara á Alþingi. Þá er ekki að sjá eins og nú standa sakir. 

 


Viðbrögð við svari Björns Bjarnasonar vegna þriðja orkupakkans

Björn Bjarnason bregst á vefsíðu sinni bjorn.is við grein minni í Morgunblaðinu í gær. Tek fram að á vefsíðu hans ber margt gott fyrir augu.

Björn teflir ekki fram neinum rökum til stuðnings þriðja orkupakkanum og sýnist ófær um að taka á málefnalegum athugasemdum ráðunauta ríkisstjórnarinnar. Hann gerir enga tilraun í þá átt.

Björn Bjarnason segir norsku samtökunum Nei til EU hafi tekist að virkja fjölmennan hóp háværra andstæðinga þriðja orkupakkans í von um að meirihluti alþingismanna legðist gegn þriðja orkupakkanum. Þessi orð Björns Bjarnasonar gefa tilefni til að spyrja um heimildir og hver var þessi fjölmenni hópur? Hvernig beitti hann sér gegn þriðja orkupakkanum? Hverjir kynnu að vera nafngreindir í þessum hópi?

Björn segir mig hafa fallið í Alþingiskosningum 2021. Þetta er rangt því ég gaf ekki kost á mér til framboðs. Framboð Miðflokksins 2021 var mér með öllu óviðkomandi en hefði haft skírskotun til þriðja orkupakkans hefði ég einhverju um ráðið. 

Björn Bjarnason lýkur færslunni á vefsíðu sinni með orðunum að fráleitt hefði verið að Ísland beitti neitunarvaldi sínu vegna þessa máls. Þessi fullyrðing er eins og fleiri slíkar sem Björn lætur frá sér fara um þetta mál: Órökstudd. Já, málstaðurinn sýnist ekki betri en þetta. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband